Fagna gagnrýni umhverfisráðherra

Náttúruverndarsamtök Íslands fagna gagnrýni umhverfisráðherra á samþykktir bæjarstjórna Garðs og Reykjanesbæjar. Samtökin lýsa yfir fullum stuðningi við kæru Landverndar og krefjast þess að umhverfisráðherra ógildi álit Skipulagsstofnunar um álver í Helguvík og tryggi með þeim hætti að fram fari heildstætt umhverfismat fyrir álver, orkuflutninga og þær virkjanir sem óhjákvæmilega þarf að ráðast í. Þetta kemur fram á vef samtakanna.

„Fyrir kæru Landverndar liggja gild rök sem m.a. byggja á markmiðum tilskipunar Evrópusambandsins um mat á umhverfisráhrifum þess efnis að allar upplýsingar liggi fyrir þegar ákvörðun er tekin. Þess vegna ber ráðherra að ógilda álit Skipulagsstofnunar og taka þannig af öll tvímæli um að fram verði að fara nýtt og heildstætt mat á umhverfisáhrifum.

Útgáfa Reykjanesbæjar og Garðs á framkvæmdaleyfi er ótímabær gjörningur í kapphlaupi um tiltækar heimildir fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá nýrri stóriðju; heimildir sem einungis nægja fyrir eitt lítið álver enn. Ákvörðun Reykjanesbæjar og Garðs er því atlaga að skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum og afar brýnt að umhverfisráðherra grípi þar inn. Að öðrum kosti skapast illt fordæmi sem önnur álfyrirtæki munu nýta sér."

Sjá nánar á vef Náttúruverndarsamtaka Íslands 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka