Fljótsdalshérað tekur hluta Valaskjálfar á leigu

Samkomulag hefur náðst milli eigenda Valaskjálfar og Fljótsdalshéraðs um að sveitarfélagið taki á leigu félagsheimilishluta Valaskjálfar en sjálfir ætla eigendur hússins að reka áfram hótel í öðrum hluta húsnæðisins. Samkomulag um málið var samþykkt á fundi bæjarráðs í gær. Frá því að þáverandi sveitarstjórnir á Fljótsdalshéraði tóku þá ákvörðun fyrir um áratug að selja húsnæði Valaskjálfar hefur þar verið stundaður fjölbreytilegur rekstur, m.a. hótel, sportbar og kvikmyndahús. Síðustu ár hefur eignarhald á húsinu sem og rekstur þess skipt ört um hendur og mismikil starfsemi verið í húsinu á þeim tíma m.a. af þeim völdum, að því er segir á vef Fljótsdalshéraðs.

„ Núverandi bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur þó ávalt verið velviljuð rekstri félagsheimilishlutans og reynt eftir megni að standa við bakið á þeim aðilum sem þar hafa ráðið ríkjum, nú síðast með sérstökum styrktarsamningi vegna menningarviðburða sem fram fóru í húsinu.

Síðan húsið skipti um eigendur nú síðast og ljóst var að ekki stæði til að reka áfram félagsheimilið hefur sveitafélagið leitað leiða með eigendum svo áfram megi treysta  hlutverk Valaskjálfar sem samkomu- og menningarhúss fyrir svæðið. Sem slíkt þjónar húsið afar mikilvægu hlutverki í eflingu svæðisins sem verslunar- og þjónustukjarna Austurlands svo og þörfu hlutverki í menningarlífi íbúa sveitarfélagsins, ekki síst ungs fólks, til dæmis með tilliti til dansleikja, árshátíða og stærri samkoma.

Með þeim samningi sem nú hefur tekist á milli aðila, vill bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs brúa ákveðið bil þar til nýtt menningar- og sviðslistahús rís í miðbæ Egilsstaða og um leið og rekstur þessa stóra samkomuhúss er tryggður til næstu ára.

Í framhaldi af undirritun þessa samnings verður hafist handa við að finna rekstaraðila að félagsheimilinu og í þeim tilgangi verður málið kynnt öllum veitingamönnum á svæðinu sérstaklega, og reksturinn auglýstur til leigu skv. settum skilyrðum, meðal annars með tilliti til leikhússtarfsemi.

Það er von bæjarstjórnar að með þessum samningi verði blómlegur rekstur félagsheimilisins tryggður til næstu ára um leið og ákveðið bil er brúað með því að bæta úr aðstöðuleysi í sveitarfélaginu gagnvart sviðslistum, á meðan nýtt sviðslistahús er í byggingu í nýjum miðbæ Egilsstaða," samkvæmt vef Fljótsdalshéraðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka