Góðar móttökur í Mexíkó

Ólafur Ragnar Grímsson ásamt Viðskiptasendinefnd
Ólafur Ragnar Grímsson ásamt Viðskiptasendinefnd

Viðskiptasendinefndinni í fylgd med forseta Íslands í Mexíkó hefur verið afar vel tekið, en flest fyrirtækin komu til Mexíkóborgar á mánudag og taka þátt í dagskrá og viðskipafundum út vikuna, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Forseti Mexíkó bauð fulltrúum fyrirtækjanna og öðrum gestum á opnunarhátíð og hátíðarhádegisverð á þriðjudag en fyrr um morguninn stóð Útflutningsráð fyrir kynningarfundi um viðskiptatækifæri í Mexíkó.

Í dag var mikill Íslandsdagur á Camino Real hótelinu. Annars vegar var haldinn 60 manna orkufundur med íslenskum orkufyrirtækjum og háskólum og lykilaðilum heimamanna í orkugeiranum. Í næsta sal stóð Latibær fyrir mjög fjölmennri kynningu á sinni starfsemi og skrifaði í lok kynningarinnar undir tímamótasamning við Walmart. Latibær er óhemju vinsæll hér í Mexíkó og Magnúsi Scheving er tekið sem þjóðhetju af ungum sem öldnum hvert sem hann fer.

Ferðaþjónusta er atvinnuvegur á mikilli uppleið í Mexíkó og Fosshótel hefur staðið í ströngu hér við að kynna Ísland sem vænlegan áfangastað fyrir heimamenn við miklar og góðar undirtektir.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson og menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafa tekið mikinn þátt í viðskiptahlutanum og stutt vel við bakið á fyrirtækjunum eins og þeirra er von og vísa. Sendiherrar þjóðanna, Albert Jónsson og Martha Bárcena Coqui hafa einnig tekið mikinn þátt í að gera hlut fyrirtækjanna sem mestan, enda afar mikilvægt fyrir viðskiptaaðila Mexíkó að vera í góðum tengslum bæði við einkaaðila og hið opinbera.

Eftirtalin fyrirtæki eru þátttakendur í viðskiptasendinefndinni: Fosshótel, Geysir Green Energy, Glitnir, Iceland America Energy, Háskólinn í Reykjavík, Hólshyrna, Korni, Landsbanki, Latibær, Marel, RES og REYST.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert