Hefja skipulagða hvalaskoðun frá Drangsnesi

Samkvæmt niðurstöðum hagkvæmnisathugunar, sem Hvalaskoðunarsamtök Íslands, Icewhale, og Alþjóðlegi dýraverndunarsjóðurinn, IFAW, stóðu að, er talið hagkvæmt að hefja skipulagða hvalaskoðun á Ströndum og við Ísafjarðardjúp á Vestfjörðum og er stefnt að slíkri starfsemi frá Drangsnesi við Steingrímsfjörð þegar í sumar.

Arianna Cecchetti, starfsmaður Hvalasafnsins á Húsavík, og Marianne Rasmussen hjá Háskólasetri HÍ á Húsavík unnu skýrsluna á þessu ári og var hún kynnt á Selfossi í gær. Í henni kemur fram að miklir möguleikar felist í ferðamennsku og þar með hvalaskoðun. Hins vegar vanti upplýsingar um tölu ferðamanna á Vestfjörðum og því sé erfitt að meta hvað margir myndu nýta sér hvalaskoðun á svæðinu, en upplýsingaöflun hefjist í sumar.

Samt sem áður liggi fyrir að villt náttúran og útsýni dragi að ferðamenn svo gera megi því skóna að hvalaskoðun yrði enn eitt aðdráttaraflið og fengi ferðamenn hugsanlega til að eyða meiri tíma á svæðinu, því þar sé þó nokkur hvalagengd. Bent er á að upplýsingar liggi fyrir um ýmsar hvalategundir þarna eins og til dæmis hrefnur, hnýðinga, húfubaka, háhyrninga og búrhvali.

Fram kemur að Drangsnes sé heppilegasti staðurinn til að gera út hvalaskoðun, því næst Reykjanes í Ísafjarðardjúpi og svo Ísafjörður og Bolungarvík, en hugsanlega þurfi að gera ýmsar úrbætur eins og til dæmis í sambandi við gistingu og hafnaraðstöðu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert