Hæstiréttur hefur dæmt pólskan karlmann í 2 mánaða fangelsi fyrir að villa á sér heimildir hér á landi og framvísa vegabréfi annars manns til að fá dvalarleyfi. Maðurinn var í Héraðsdómi Austurlands dæmdur í 6 mánaða fangelsi.
Upphaf málsins var að lögreglunni á Fáskrúðsfirði bárust ábendingar um að maðurinn villti á sér heimildir. Þegar hann sótti dvalarleyfi á lögreglustöðina fannst lögreglu mynd í vegabréfi, sem hann framvísaði ekki eiga við manninn, og var í framhaldi farið að rannsaka málið.
Maðurinn var þrisvar yfirheyrður á síðari hluta síðasta árs. Hann neitaði sök og sagðist vera sá, sem vegabréfið tilgreindi.
Lögreglan á Eskifirði sendi mynd úr vegabréfinu og myndir af manninum til vegabréfarannsóknarstofu landamæradeildar lögreglunnar á Suðurnesjum til greiningar og var niðurstaða hennar, að ekki væri um sama mann að ræða.
Hæstiréttur segir, að fram hafi komið nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, að maðurinn sé sekur um að villa á sér heimildir.