Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafa tekið upp samstarf við Orkustofu Kanaríeyja (ITER) um rannsóknir á jarðhitanýtingu á eyjunum.
Fram kemur á heimasíðu ÍSOR, að Árni Hjartarson jarðfræðingur, fór til Kanaríeyja í febrúar vettvang og kynnti sér aðstæður. Hann fór í könnunarleiðangra með sérfræðingum eyjarskeggja á þau svæði sem talið er hugsanlegt að nýtilegur jarðhiti leynist á Tenerife, Gran Canaria, Lanzarote og La Palma.
ÍSOR segir, að þótt eldvirkni sé mikil á þessum slóðum sé jarðhiti lítt áberandi. Á Tenerife sjáist yfirborðshiti t.d. einungis í gígnum á hátindi eldfjallsins Teide í um 3700 m hæð yfir sjó. Á La Palma var jarðhitinn bundinn við heilsulauginaSanta Fuente, sem Evrópubúar sóttu í á fyrri öldum. Hún fór undir hraun í eldsumbrotum 1677 en nú er verið að grafa hana upp. Á Lanzarote er gríðarmikill hiti tengdur eldstöðvum sem gusu 1730-1736, en þar er ekkert vatn.
Einu notin af jarðhitanum tengjast ferðaþjónustu. Eru menn að velta fyrir sér hvort hugsanlegt sé að finna nægan hita til raforkuframleiðslu. Hefðbundin íslensk nýting hitans til húshitunar, ylræktar og snjóbræðslu er ekki inni í myndinni. Rafmagn á eyjunum er framleitt í vind- og sólarorkuverum en þó langmest með olíu.
Hlutverk ÍSOR er ekki beinlínis að finna jarðhitann heldur að gera tillögur um hvernig haga skuli rannsóknum og jarðhitaleit og leggja fram sundurliðaðar rannsóknaráætlanir. Sérfræðingahópur ÍSOR liggur nú yfir rannsóknargögnum frá eyjunum og mun ljúka tillögugerð sinni um alhliða rannsóknarátak fyrir lok mars.