Töluverðrar óánægju gætir innan Landssamtaka landeigenda vegna frumvarps félagsmálaráðherra um frístundabyggð, sem er til meðferðar hjá félags- og tryggingamálanefnd Alþingis. Þá leggst Búnaðarþing 2008 eindregið gegn samþykkt frumvarpsins í núverandi mynd. Landeigendur hafa m.a. gagnrýnt breytingar sem urðu á frumvarpinu frá því að starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytis lauk störfum. Þingmaður Sjálfstæðisflokks í félags- og tryggingamálanefnd telur nær öruggt að breytingar verði á frumvarpinu.
„Við erum mjög óhress með þetta og teljum að stjórnarskráin sé þarna þríbrotin,“ segir Örn Bergsson, stjórnarmaður í Landssamtökum landeigenda. „Lögin eru t.a.m. afturvirk og fara inn í gerða samninga, eins er samningsréttur manna brotinn með því að leigutaki getur einhliða framlengt leiguna um 25 ár. Svo er þarna brotið félagafrelsi, en frístundahúsaeigendur eru skyldaðir til að vera í félögum á meðan félagafrelsi ríkir í landinu.“
Samtökin áttu fulltrúa í starfshópi um málefni frístundahúsa sem skilaði tillögum til félagsmálaráðherra. Örn segir frumvarpið líta allt öðruvísi út en gert var ráð fyrir í starfshópnum.