Líklegt að hrefnuveiðikvóti verði gefinn út

Frá hvalskurði haustið 2006.
Frá hvalskurði haustið 2006. mbl.is/Ómar

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur eftir skrifstofustjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, að hvalveiðikvótar verði líklega gefnir út í sumar. Hrefnuveiðimenn hafa nefnt 100 dýra kvóta og forstjóri Hvals segist einnig vonast til, að gefnir verði út veiðikvótar fyrir langreyði, jafnvel allt að 150 dýr.

Engir atvinnuveiðikvótar voru gefnir út á síðasta ári þar sem ekki hafði tekist að ná samningum um að selja hvalaafurðir til útlanda. 

BBC hefur eftir Gunnari Bergmann Jónssyni, formanni Félags hrefnuveiðimanna, að 45 hrefnur hafi veiðst í fyrrasumar og þær hafi allir selst á innanlandsmarkaði. Sjávarútvegsráðherra hafi sagst byggja ákvörðun sína um veiðikvóta á því hvort markaður sé fyrir afurðirnar og þess vegna vonist hrefnuveiðimenn eftir því að kvóti verði gefinn út.

Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri og formaður sendinefndar Íslands hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu, segir við BBC, að líklega verði í tiltölulega náinni framtíð gefnir út veiðikvótar fyrir hrefnu. Það mikilvægasta sé að tryggja, að kvótarnir séu innan sjálfbærra marka.

Talið er að 175 þúsund hrefnur séu í Norður-Atlantshafi og 100 dýra kvóti er því því innan skilgreindra sjálfbærra marka.

Árið 2006 var veitt heimild til að veiða 9 langreyðar í atvinnuskyni. Ekki tókst þá að veiða upp í kvótann og ekki var gefinn út kvóti á síðasta ári. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, segir við BBC, að hann vonist til þess að nýr veiðikvóti verði gefinn út í sumar, jafnvel fyrir allt að 150 dýr.

„Það eru 25 þúsund langreyðar á svæðinu þar sem við veiðum," segir Kristján. „Efbóndi  ætti 25 þúsund nautgripi á akrinum sínum held ég ekki að hann myndi fallast á að enginn yrði felldur. Ef veiði á 150 dýrum er ekki sjálfbær þá veit ég ekki hvað er sjálfbært."

Stefán segist ekki útiloka að gefinn verði út veiðikvóti fyrir langreyði þótt ólíklegt sé að kvótinn verði 150 dýr. Mestallar afurðirnar, sem féllu til við veiðarnar árið 2006, eru enn í kæligeymslum en Hvalur vonast til að geta á endanum selt þær til Japans. 

BBC hefur eftir Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands, að það væri algerlega tilgangslaust að gefa út hvalveiðikvóta í sumar og slíkt myndi stríða gegn þeim anda sem Íslendingar vilji að ríki á alþjóðavettvangi. „Það er lítill innanlandsmarkaður og útflutningsleiðin til Japans er lokuð; er Ísland aðeins að reyna að koma einhverjum skilaboðum á framfæri?" segir Árni.

Robbie Marsland, formaður Bretlandsdeildar Alþjóða dýraverndunarsjóðsins, tekur í sama streng og segir að það væri hættulegt skref fyrir alþjóðlegan orðstír Íslands, ferðaþjónustu og efnahagslíf ef hvalveiðar í atvinnuskyni haldi þar áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert