Vaðlaheiðargöng og tvöföldun Suðurlandsvegar hafa verið sett á samgönguáætlun og vonast er til að framkvæmdir geti jafnvel hafist í haust. Áformað er að kynna þetta á blaðamannafundi í dag.
Með því að setja framkvæmdirnar á samgönguáætlun er búið að taka ákvörðun um legu og framkvæmd þessara tveggja verkefna og setja þau í forgang. Samkvæmt heimildum 24 stunda hefur viðauki við gildandi samgönguáætlun þar sem þetta kemur fram verið samþykktur í þingflokkum beggja stjórnarflokkanna.
Þá verða útfærslur á fjölmörgum tengivegum í landsbyggðarkjördæmum einnig kynntar. Um er að ræða stutta vegakafla, fimm til tíu kílómetra langa, sem smærri verktakar á landsbyggðinni ráða við að sinna. Þessar framkvæmdir þurfa heldur ekki að fara í umhverfismat og því hægt að ráðast í þær fljótlega til að mæta niðursveiflu í atvinnulífinu.