„Aflþynnuverksmiðjan kemur til með að skila um átta hundruð lítrum af fimmtíu til sextíu gráðu heitum sjó, eftir að hann hefur verið notaður sem kælivatn til að kæla niður framleiðsluna.“
Þetta segir Baldvin Halldór Sigurðsson, bæjarfulltrúi Vinstri grænna, sem sæti á í bæjarstjórn Akureyrarbæjar. Hann hefur sett fram nýstárlega hugmynd um að nýta kælivatn aflþynnuverksmiðju Becromal, sem nú rís á Krossanesi við Akureyri, til að kynda risagróðurhús sem sérhæfi sig í ræktun á lífrænu grænmeti til útflutnings frá Akureyrarflugvelli.
„Eftirspurn eftir lífrænt ræktuðu grænmeti er gríðarleg, en framleiðendur geta ekki annað eftirspurninni vegna skorts á góðri og hreinni mold. Við eigum nóg til af hreinni lífrænni mold hér á landi og við getum flutt framleiðsluna beint héðan frá Akureyri á markað erlendis.“
Baldvin segir hugmyndina á frumstigi. „Ég hef viðrað hugmyndina við fjárfesta og þeir hafa tekið henni vel.“ aegir@24stundir.is