Lögreglan á Selfossi stöðvaði sölu á saumavélum á Selfossi í gær. Ástæðan var beiðni frá Neytendastofu um að kanna heimild erlendra aðila til sölu á saumavélunum frá þekktum framleiðanda, er fram kemur á fréttavef Lögreglunnar.
Aðdragandi málsins var sá að erlendir aðilar höfðu flutt inn hátt á fimmta hundrað saumavéla til landsins sem þeir ætluðu að selja á fjórum dögum. Salan fór fram í Reykjavík, Hafnarfirði og á Selfossi. Saumavélarnar og sölustaðir voru auglýstir opinberlega. Fyrstu þrjá dagana fór salan fram á höfuðborgarsvæðinu og síðasta daginn á Selfossi. Saumavélasalarnir höfðu selt tæplega helming þeirra saumavéla sem þeir fluttu inn. Á Selfossi náðu þeir að selja tvær saumavélar þegar starfsemin var stöðvuð og sölumennirnir, sem voru þrír, færðir á lögreglustöð þar sem þeir voru yfirheyrðir.
Í yfirheyrslum báru þeir að hafa leitað til viðurkenndra opinberra aðila auk einkafyrirtækja og fengið ráð og leiðbeiningar um hvernig standa ætti að sölunni. Rannsókn heldur áfram og beinist að meintu broti á lögum um verslunaratvinnu. Aðilar þessir hafa áður komið hér til lands til sölu á saumvélum og mun lögregla og opinberir aðilar þá hafa haft afskipti af þeim en ekkert aðhafst.