Tvöföldun hefst 2009

Frá blaðamannafundi samgönguráðherra í dag.
Frá blaðamannafundi samgönguráðherra í dag. mbl.is/Jón Pétur

Framkvæmdir við tvöföldun Suðurlandsvegar og vinna við jarðgöng undir Vaðlaheiði hefjast á næsta ári. Þetta kom fram í máli samgönguráðherra, Kristjáns Möller, á blaðamannafundi í dag þar sem viðauki við samgönguáætlun var kynntur. Báðar þessar framkvæmdir verða í einkaframkvæmd.  Hluti ríkisins verði greiddur með jöfnum árlegum greiðslum í 25 ár eftir að framkvæmdum lýkur.

Gert er ráð fyrir að báðar þessar framkvæmdir hefjist á fyrri hluta árs 2009. Þá felur viðaukinn einnig í sér að framkvæmdum við tengivegi víða um land verður flýtt, auk tiltekinna framkvæmda við hafnir og flugvelli. 

Um er að ræða tvöföldun Suðurlandsvegar frá Litlu Kaffistofunni að Hveragerði. Auk samgönguráðherra kynntu þeir Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra og Kristján Þór Júlíusson, þingmaður viðaukann á fundinum.

Í fréttatilkynningu kemur fram að í kjölfar ákvörðunar um niðurskurð þorskkvótans ákvað ríkisstjórnin á síðastliðnu sumri að grípa til mótvægisaðgerða í formi framkvæmda í samgöngumálum til að draga úr áhrifum fyrirsjáanlegs aflasamdráttar. Tilkynnti ríkisstjórnin flýtingu framkvæmda að upphæð 6.500 m.kr. Í ljósi svo mikilla breytinga á samgönguáætlun þótti nauðsynlegt að gera viðauka við samgönguáætlun 2007 – 2010, sem samþykkt var á Alþingi í mars 2007, og gera þar með grein fyrir breytingum á einstökum liðum áætlunarinnar. Viðauki þessi er nú kynntur og verður hann lagður fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu nú á vorþingi.

Samkvæmt því sem fram kom á fundinum er að byggja nýjan tengiveg að Bakkafjöruhöfn, en samkvæmt áætlunum sem nú eru uppi um hafnargerð þar þarf að leggja veginn á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert