Það er vandræðaástand á Reykjavíkurflugvelli hvað uppbyggingu varðar vegna óvissu um hvort völlurinn á að vera áfram í Vatnmýrinni eða ekki og vel kemur til greina að koma þar upp bráðabirgðaaðstöðu sem gæti þjónað flugstöð á næstu árum. Þetta voru Kristján L. Möller samgönguráðherra og Valgerður Sverrisdóttir, Framsókn, sammála um á Alþingi í gær.
Sú síðarnefnda beindi fyrirspurn til ráðherrans um málið og sagði ekki boðlegt að hafa „þessa skúra fyrir farþega í innanlandsflugi“. Kristján tók í sama streng: „Meðan vinna fer fram við rannsóknir á Hólmsheiði vitum við að völlurinn á eftir að vera þarna í dálítið mörg ár þó svo að Reykjavíkurborg komist að þeirri niðurstöðu að hann eigi að fara og þess vegna er óþolandi að flugið fái ekki að þróast þarna eins og það þyrfti að gera,“ sagði hann.