„Farþegaflutningar eru hryggurinn í ferðaþjónustunni. Erfiðleikar þar geta haft mikil áhrif í öðrum greinum,“ segir Eydís Aðalbjörnsdóttir, verkefnisstjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF). Samtökin skora á stjórnvöld að lækka álögur á eldsneyti eða grípa til sértækra aðgerða til handa fyrirtækjum í ferðaþjónustu.
Kaup á eldsneyti eru veigamikill kostnaðarliður hjá fyrirtækjum í mörgum greinum ferðaþjónustunnar. Eydís nefnir farþegaflutninga svo sem hópferðir og sérleyfisbifreiðar og afþreyingarfyrirtæki sem bjóða til dæmis vélsleða- og jeppaferðir. Í áskorun SAF kemur fram að hækkun eldsneytisverðs hafi gífurleg áhrif á rekstur fyrirtækja á þessu sviði. Eydís segir að fyrirtækin geri í mörgum tilvikum samninga til langs tíma við erlenda birgja og sveitarfélög og því sé ekki svigrúm til hækkunar á þjónustunni til að mæta eldsneytishækkunum.
„Afleiðingarnar koma í ljós eftir sumarið,“ segir Eydís þegar hún er spurð um áhrifin á rekstur fyrirtækjanna. Hún telur að reksturinn verði afar erfiður í sumar. Þá segir hún að farþegaflutningarnir séu mikilvægur liður ferðaþjónustunnar og erfiðleikar þar hafi áhrif á fyrirtæki sem þjóna ferðafólki í öðrum greinum.
Í áskorun SAF, sem send var forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra, samgönguráðherra, viðskiptaráðherra og formönnum þingflokka, er vakin athygli á því að Íslendingar séu í mikilli og vaxandi samkeppni við önnur lönd um ferðafólk. Verðlag hér þyki hátt og frekari hækkanir ekki vænlegar. Eldsneytishækkanir geti því grafið undan frekari vexti.
Starfandi er nefnd á vegum fjármálaráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins til að skoða álögur á ökutæki og eldsneyti í þeim tilgangi að auka notkun umhverfisvænna orkugjafa. Að sögn Böðvars Jónssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra, sér fyrir endann á starfi nefndarinnar og er reiknað með að hún skili tillögum sínum upp úr næstu mánaðamótum.