Flugvél af gerðinni Beechcraft 350C með skráningarnúmerið N4466A millilenti í dag á Keflavíkurflugvelli. Flugvélin er í eigu félagsins Aviation Specialities Inc. en í skýrslu Evrópuþingsins frá árinu 2006 segir að þetta sé eitt af leppfélögum bandarísku leyniþjónustunnar CIA og hafi verið notað til að flytja fanga milli landa.
Flugvélin kom hingað frá Solaflugvelli í Stavangri í Noregi. Að sögn Friðþórs Eydals, upplýsingafulltrúa Keflavíkurflugvallar lenti flugvélin á vellinum laust eftir hádegið og var þar í um klukkutíma og tók eldsneyti.
Samkvæmt upplýsingum frá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli fóru tollverðir um borð í vélina og voru þar aðeins tveir flugmenn en engir farþegar. Flugvélin hélt héðan áleiðis til Syðra-Straumsfjarðar á Grænlandi og var ferðinni síðan heitið til Bandaríkjanna.
Flugvélin kom til Sola frá Brno Turnay í Tékklandi. Aftenposten segir, að norskir stjórnmálamenn, sem blaðið hafi rætt við, líti málið alvarlegum augum og vilji að allar upplýsingar um ferðir vélarinnar verði lagðar á borðið.