Dæmd til að greiða kennara 10 milljónir í bætur

Mýrarhúsaskóli.
Mýrarhúsaskóli. mbl.is/Kristinn

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag móðir ungrar stúlku, sem var nemandi í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi, til að greiða kennara stúlkunnar rúmar 9,7 milljónir króna í skaðabætur auk 1 milljónar króna í málskostnað. Stúlkan renndi hurð á höfuð kennarans og slasaði hann.

Fram kemur í dómnum, að stúlkan hefur verið greind með  Aspergerheilkenni. Stúlkunni hafði í nóvember 2005 sinnast við bekkjarfélaga sína og farið inn í geymslu, sem var lokað með rennihurð. Kennarinn ætlaði að sækja stúlkuna og stakk höfðinu inn í geymsluna en þá skall rennihurðin á andliti hennar og hentist hún þá með höfuðið á vegg. Síðan hefur hún þjáðst af höfuðverk, öðrum eymslum og þrekleysi.

Kennarinn stefndi bæði stúkunni og Seltjarnarnesbæ fyrir hönd skólans vegna slyssins. Í niðurstöðu fjölskipaðs héraðsdóms segir, að stúlkan, sem var nýorðin 11 ára þegar þetta gerðist, hafi þekkt muninn á réttu og röngu og ekkert í málinu bendi til þess að fötlun hennar hafi skert dómgreind hennar eða að vitsmunaþroski hennar hafi verið minni en almennt hjá börnum á sama aldri.  

Þá segir í dómnum, að ekkert liggi fyrir um það í málinu að stúlkan hafi ætlað sér að skella hurðinni á kennarann heldur sé líklegra að hvatvísi hennar hafi þar ráðið för eða reiði vegna þess að henni hafði sinnast við skólabræður sína.  Á hinn bóginn hafi henni mátt vera ljóst, að sú háttsemi hennar að loka hurðinni með afli  væri hættuleg og hún hlyti að hafa gert sér grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar sú háttsemi gat haft í för með sér.  Því beri stúlkan skaðabótaábyrgð á tjóni kennarans.

Skólinn var sýknaður af kröfu um skaðabætur þó að matsmaður hafi talið að klemmivörn á hurðinni hafi ekki komið í veg fyrir að  hún skall á höfði kennarans. Dómurinn taldi hurðina uppfylla öryggiskröfur í lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka