Framkvæmdir Norðuráls hófust í Helguvík í morgun

Oddný Harðardóttir bæjarstjóri sveitarfélagsins Garðs og Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar …
Oddný Harðardóttir bæjarstjóri sveitarfélagsins Garðs og Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar afhentu Ragnari Guðmundssyni, forstjóra Norðuráls byggingarleyfið. mynd/Víkurfréttir

„Við vorum að afhenda forstjóra Norðuráls byggingaleyfið og þeir eru að hefja undirbúning að verkefninu," sagði Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæ í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í morgun. Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls sagði að núna væri verið væri að undirbúa aðgengi að svæðinu.

Eftir að byggingaleyfið var afhent hófust framkvæmdir og byrjað er á að girða svæðið af og byggja upp aðstöðu fyrir verktaka og starfsfólk. Ragnar sagði að byrjað væri á því að grafa fyrir vegi og bílastæði fyrir starfsfólk.

„Fyrsta skóflustungan verður tekin þegar við höfum gengið frá samningum við verktaka, það má reikna með að það verði á næstunni," sagði Ragnar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í morgun.

Árni Sigfússon sagði að með tilliti til stærðar verkefnisins hefði þessi háttur verið hafður á við formlega afhendingu byggingaleyfisins og það væri ekkert óvenjulegt við það.

Í fréttatilkynningu frá Norðuráli segir: „Líkt og álver Norðuráls á Grundartanga verður álverið í Helguvík byggt í áföngum þannig að fyrirtækið vaxi hóflegum skrefum fyrir íslenskt hagkerfi. Áætlað er að fyrsta áfanga framkvæmda verði lokið árið 2010 og að framleiðslugeta álversins verði þá um 150.000 tonn á ári. Öðrum áfanga á að verða lokið árið 2015 og verður framleiðslugetan þá komin í 250.000 tonn. Áformað er að hefja álframleiðslu í Helguvík síðla árs 2010."

Helguvík.
Helguvík.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert