Inflúensan hefur að því er virðist verið fremur væg það sem af þessum vetri og kom tiltölulega seint. Flestir þeirra sem hafa veikst eru ungir að árum en einungis 14% þeirra sem hafa greinst með inflúensu eru 60 ára og eldri. Þetta kemur fram í Farsóttarfréttum landlæknisembættisins.
Að þessu sinni er stuðst við vikulegar upplýsingar frá Læknavaktinni á höfuðborgarsvæðinu um fjölda sjúklinga sem þangað hafa leitað og hlutfall þeirra sem greindust með inflúensulík einkenni á tímabilinu frá 1. desember 2007 til 8. mars 2008.
Á sama tíma hefur veirufræðideild Landspítalans greint inflúensuveiru í sýnum frá 35 sjúklingum en þar af voru 13 með inflúensu A og 22 með inflúensu B.
Inflúensan hefur greinst nokkuð reglulega frá áramótum en virðist ekki hafa haft marktæk áhrif í samfélaginu fyrr en í lok janúar. Enn er of snemmt að fullyrða um að inflúensan sé í rénun, samkvæmt Farsóttarfréttum landlæknisembættisins.
40% sjúklinga yngri en tíu ára
„Af inflúensu A hefur einungis greinst undirstofninn H1N1 það sem af er. Þetta er óvenjulegt því að yfirleitt er undirstofninn H3N2 ráðandi þegar inflúensa A gengur. Það sem einkennt hefur inflúensufaraldurinn hingað til er tiltölulega lágur aldur sjúklinganna, en meðalaldur þeirra er 25 ár, og 40% sjúklinganna eru yngri en 10 ára. Einungis 14% sjúklinganna eru 60 ára og eldri.
Nærtæk skýring er sú að þar sem H1N1-stofninn og inflúensa B eru yfirleitt sjaldgæfari en H3N2, er líklegt að ungt fólk sé næmara fyrir H1N1 en þeir sem eldri eru. Önnur hugsanleg skýring er að fleiri en venjulega í aldurshópnum 60 ára og eldri hafi látið bólusetja sig gegn inflúensu, eins og mælt er með," að því er segir í Farsóttarfréttum.