Krefja bæinn um 1,5 milljarða

 Húsgagnaverslunin Svefn og heilsa krefst þess að Akureyrarbær greiði fyrirtækinu rúman einn og hálfan milljarð króna vegna eignaskerðingar og verðmætarýrnunar sem hljótast muni af eignarnámi bæjarins. Bærinn hyggst taka hluta fasteignar fyrirtækisins á Akureyri eignarnámi.

Bótakröfuna er að finna í greinargerð sem lögfræðingur fyrirtækisins hefur sent Matsnefnd eignarnámsbóta vegna málsins.

Forsaga málsins er sú að í nóvember 2006 samþykkti Akureyrarbær að breyta deiliskipulagi Gleráreyra á Akureyri. Þetta var gert til að útvega verslunarmiðstöðinni Glerártorgi lóðir undir stækkun til suðvesturs, en bærinn sá sig síðar knúinn til að taka hluta fasteignar Svefns og heilsu eignarnámi til að tryggja sér lóðarréttindi fyrirtækisins á reitnum.

Um 4000 fermetra fasteign

Fasteign Svefns og heilsu á Akureyri er um fjögur þúsund fermetrar að stærð. Í umræddri greinargerð er fasteignin verðmetin á níu hundruð milljónir króna og lóðarréttindi hennar á 105 milljónir. Tjón vegna rekstrarstöðvunar í tólf mánuði er metið á rúmar 103 milljónir króna og kostnaður fyrirtækisins við að standsetja nýtt verslunarhúsnæði er metinn á rúmar 377 milljónir króna. Ofantalið liggur til grundvallar bótakröfu fyrirtækisins.

„Bærinn vill taka um þrjá fjórðu af verslunarhúsnæðinu eignarnámi og skilja restina eftir. Það gefur augaleið að við getum engan veginn sætt okkur við það enda er þá grundvöllur fyrir rekstri búðarinnar brostinn,“ segir Sigurður Matthíasson eigandi Svefns og heilsu. 2005 var ráðist í endurbætur á húsnæði fyrirtækisins og það stækkað.

„Sjónarmið byggingaraðila Glerártorgs hafa verið látin ein ráða ferðinni, án tillits til þess hvort þau skaða önnur fyrirtæki sem fyrir eru á svæðinu. Bærinn hefði getað náð sátt í málinu ef hann hefði samið við hlutaaðeigendur í tíma. Þessari aðgerð bæjarins núna má líkja við að taka íbúðarhúsnæði eignarnámi og skilja eftir bílskúrinn.“

Matsnefnd eignarnámsbóta mun kveða upp úrskurð sinn vegna málsins í lok mánaðarins.

Í hnotskurn
Svefn og heilsa rekur búðir í Reykjavík og á Akureyri. Fyrirtækið opnaði verslun á Akureyri 1999 og síðan verslunina Húsgögnin heim 2005, en þær eru reknar saman.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert