Í hádeginu verður kynnt skýrsla um umferðaróhöpp í Forvarnarhúsinu, og mun Einar Guðmundsson forstöðumaður Forvarnahússins og höfundur skýrslunnar greina frá tíðni og eðli umferðaróhappa á höfuðborgarsvæðinu árið 2007.
Að sögn Einars fjölgaði bílum um 6% frá 2006-2007 og tjónum fjölgaði um 2% á milli ára. Tjónum hefur fækkað hlutfallslega á miðað við fjölgun bíla en Einar segir það áhyggjuefni að slösuðum einstaklingum hefur fjölgað. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði slösuðum einstaklingum um 9,2% sem er hlutfallslega minna en á landsbyggðinni þar sem slösuðum fjölgaði um 11%. Í skýrslunni kemur fram að 13.700 óhöpp urðu á höfuðborgarsvæðinu árið 2007 og í þeim slösuðust 1800 manns.
Í skýrslunni er kostnaður samfélagsins áætlaður vegna þessara tjóna en kostnaður tryggingarfélaga vegna tjóna í umferðinni í Reykjavík einni jókst um 39% frá árinu 2006. Áætlað er að umferðartjón á höfuðborgarsvæðinu hafi kostað samfélagið 16 milljarða á síðasta ári, en þá er miðað við greiðslur tryggingafélaga, greiðslur þeirra sem eru í órétti, og kostnaður við að fá lögreglu, slökkvilið, og sjúkrabíla á slysstað.
Tjónahæsta gatan er Miklabrautin og tjónamestu gatnamótin eru gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Að sögn Einars slösuðust 110 manns á Miklubrautinni í fyrra og tjónakostnaður á götunni einni var 89 milljónir.
Mest aukning er á aftanákeyrslum og óhöppum þegar keyrt er á kyrrstæða hluti, en aukningin er um 45%. Aftanákeyrslur eru langflestar við stór gatnamót, að sögn Einars og segir hann að það sé vísbending um að menn séu með hugann við annað þegar þeir eru að keyra. Einar segir að koma þurfi þeim skilaboðum til ökumanna að akstur sé full vinna, og að menn verða að vera með fulla athygli við akstur.
Karlmenn a aldrinum 17-30 eru í tjónamesta hópnum, og tjónum hefur fjölgað hjá konum og nálgast þær karlana, að sögn Einars.