Samtökin Saving Iceland reistu táknræna stíflu við inngang skrifstofu Landsvirkjunar í morgun og kölluðu hana Háaleitisvirkjun. Segjast samökin hafa með aðgerðinni verið að mótmæla fyrirhuguðum virkjunum Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár og fullum stuðningi og samstöðu lýst yfir með þeim sem berjast fyrir verndun hennar.
Í tilkynningu frá Saving Iceland segir, að í dag sé alþjóðlegur aðgerðadagur fyrir ár og fljót haldinn í 11. skipti um allan heim en í fyrsta skipti á Íslandi. Með deginum sé athygli beint á mikilvægi áa og því að þær renni óbreyttar án þess að mannfólkið fikti við þær. Stíflur, lón og virkjanir hafi alvarleg áhrif á náttúru, lífríki og samfélög fólks sem við árnar búa og framkvæmdirnar verða ekki aftur teknar. Búast megi við uppákomum, mótmælum og beinum aðgerðum um allan heim í tilefni dagsins.