Fimm íslenskir sérsveitarmenn fylgja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra, sem heldur á næstunni í heimsókn til Afganistans, á ferðum hennar þar í landi. Þetta staðfestir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins. Sérsveitarmennirnir eru þegar komnir til Afganistans til að undirbúa öryggisgæslu vegna fyrirhugaðrar ferðar ráðherrans.
Urður segir það venju þegar háttsettir ráðamenn halda til Afganistans að ríki viðkomandi sjái um að útvega lífverði. NATO krefjist þess að lífvarsla sé til staðar í ferð sem þessari. Það þyki sjálfsagt mál hjá öðrum þjóðum að senda lífverði með háttsettu fólki og utanríkisráðherra falli þar undir.
Hún segir nauðsynlegt fyrir sérsveitarmennina að kynna sér aðstæður í Afganistan, enda verði farið á marga staði meðan á ferð ráðherrans stendur.
Utanríkisráðuneytið vill af öryggisástæðum ekki veita frekari upplýsingar um ferð ráðherrans til Afganistans. „Við viljum fara varlega í að ræða einstök efnisatriði ferðarinnar þar til nær dregur,“ segir Urður.