Skoðað gaumgæfilega hvort skaðabótadómi verði áfrýjað

Mýrarhúsaskóli.
Mýrarhúsaskóli. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Pétursson, lögmaður konu, sem var í dag dæmd til að greiða kennara sem dóttir hennar slasaði tæpar tíu milljónir króna í bætur, segir að niðurstaða dómsins hafi komið sér á óvart.

„Ég er hissa á niðurstöðunni en það verður skoðað mjög gaumgæfilega hvort dómnum verði áfrýjað. Þó hefur ákvörðun ekki enn verið tekin um það," segir Guðmundur.

Dóttir konunnar hefur verið greind með  Aspergerheilkenni. Þegar stúlkan var 11 ára árið 2005 sinnaðist henni við bekkjarfélaga sína í Mýrarhúsaskóla og fór inn í geymslu, sem var lokað með rennihurð. Kennarinn ætlaði að sækja stúlkuna og stakk höfðinu inn í geymsluna en þá skall rennihurðin á andliti hennar og hentist hún þá með höfuðið á vegg. Síðan hefur hún þjáðst af höfuðverk, öðrum eymslum og þrekleysi.

Fjölskipaður héraðsdómur taldi að stúlkan hefði  þekkt muninn á réttu og röngu og ekkert í málinu bendi til þess að fötlun hennar hafi skert dómgreind hennar eða að vitsmunaþroski hennar hafi verið minni en almennt hjá börnum á sama aldri.  Var hún því talin bera  skaðabótaábyrgð á tjóni kennarans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka