Tollkvótar: Ríkið gaf og ríkið tók

Tekjur ríkissjóðs af innfluttum kjötvörum námu ríflega átta hundruð milljónum á árinu 2007. Tekjur vegna úthlutaðra tollkvóta námu rúmlega 431 milljón króna en tekjur vegna tolla á innfluttu kjöti námu tæplega 380 milljónum.

Íslenska ríkið samdi við Evrópusambandið um viðskipti með landbúnaðarvörur á grundvelli EES-samningsins og tók það samkomulag gildi 1. mars árið 2007. Í fréttatilkynningu frá landbúnaðarráðuneytinu sem gefin var út 5. febrúar 2007 er tekið fram að samningurinn sé liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til lækkunar matarverðs. Samkvæmt samkomulaginu er leyfilegt að flytja 650 tonn af kjötafurðum inn til Íslands árlega án þess að þær beri tolla. Eftirspurn innflytjenda eftir kvótunum var talsvert umfram það magn sem í boði var. Því voru þessir kvótar boðnir upp og af því leiddi að greiðslur vegna þeirra námu sem fyrr segir 431 milljón.

Sýnir hversu vitlaust kerfið er

Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir ljóst að ávinningur verslunarinnar og neytenda sé hverfandi vegna þess mikla kostnaðar sem hlýst af útboðunum. „Menn verða að velta þessu út í verðlagið. Við höfum gagnrýnt harðlega að þessi útboðsháttur sé hafður á. Við höfum meðal annars sett fram þá hugmynd að þessum kvótum verði skipt upp í smáa pakka, hugsanlega fimm tonn í hverri einingu og þeim yrði síðan úthlutað með hlutkesti. Með því sætu allir við sama borð.“

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir það algjörlega óeðlilegt að ríkissjóður hagnist á þessum tollkvótum. „Þetta sýnir hversu vitlaust þetta kerfi er. Þessi samningur við ESB var kynntur sem mikill ávinningur fyrir neytendur en þessi útboðsstefna hefur eyðilagt hann. Það er ekki eðlilegt að innlutningskvótar séu tekjulind fyrir ríkissjóð.“

Í hnotskurn
Innflytjendur borguðu að meðaltali 662 krónur fyrir kílóið af tollfrjálsum innflutningskvóta á kjöti. Ef þeir hefðu flutt kjötið inn utan kvóta hefði 189-877 króna magntollur lagst á hvert kíló, auk 18% verðtolls.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert