Framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna á landsvísu og stjórn Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum hafa sent frá sér ályktun þar sem ítrekuð er andstöða við byggingu álvers í Helguvík. Jafnframt lýsa félögin yfir fullum stuðningi við Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra, sem hafu gert alvarlegar athugasemdir við stjórnsýslu af hálfu bæjarstjórna Reykjanesbæjar og Garðs.
Ungir jafnaðarmenn segjast hafna frekari uppbyggingu mengandi áliðnaðar á Íslandi og telja að landsmenn ættu að einbeita sér að því að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs í stað þess að hlaða áfram í hina yfirfullu álkörfu.
Þá segja samtökin að engin tæk rök séu fyrir því að hefja framkvæmdir í Helguvík og því sýni sveitarstjórnirnar mikið ábyrgðarleysi. Mikið vanti upp á að orka til framkvæmdanna og flutningur hennar sé tryggður og óljóst sé um afstöðu nágrannasveitarfélaga til línulagna. Þá hafi umhverfisráðuneytið ekki lokið við að úrskurða um kæru Landverndar þar sem farið er fram á heildstætt umhverfismat fyrir álverið, orkuöflun og orkuflutninga til þess.
Þá hafi ekki verið aflað losunarkvóta fyrir mengunina frá álveri í Helguvík en Ísland hafi þar afar lítið rými til viðbótar. Við blasi að þarna þarf að taka í taumana.