Fólki sem leitar aðstoðar hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna vegna greiðsluerfiðleika hefur fjölgað upp á síðkastið.
Að sögn Ástu S. Helgadóttur, forstöðumanns Ráðgjafarstofunnar, er mikið um að fólk hringir og leitar ráða. Er aðsóknin svo mikil um þessar mundir að fullbókað er í alla viðtalstíma fram í apríl. Sex starfsmenn eru á ráðgjafarstofunni sem veita fólki af öllu landinu aðstoð.
Ásta segir að margir hringi vegna gengisbundnu lánanna til að leita upplýsinga og virðist hafa komið mörgum í opna skjöldu hve greiðslubyrði afborgana hefur aukist að undanförnu. Hún segir marga sem leita til stofunnar hafa tekið bílalán sem bundin eru við myntkörfu.
„Við höfum vakið athygli á að fjármálafræðslu er almennt mjög ábótavant. Við finnum fyrir vanþekkingu á þessu. Ég efast ekki um að lánastofnanir hafi upplýst fólk um þetta þegar það tók lánin, en það var mikið í umræðunni að það væri mjög hagstætt að taka erlend lán. Þeim fylgir áhætta eins og fylgir líka verðtryggðu lánunum.“