Loftur Þorsteinsson, gjaldkeri félags eldri borgara í Hrunamannahreppi, er yfir sig hneykslaður á lokunaráformum Kaupþings og Íslandspósts á Flúðum. Íbúarnir og hreppsnefndin mótmæla aðgerðunum.
„Það er ákveðin félagsleg athöfn sem felst í því að fara í bankann og á pósthúsið. Þar hittir maður sveitunga sína sem partur af félagsveru íbúanna, sérstaklega þeirra sem eldri eru,“ segir Loftur. Hann telur að eldri borgarar séu ekki líklegir til þess að vilja nota netbankana í viðskiptum.
Loftur segir að rekstrarkostnaður bankans geti ekki verið of hár miðað við tilfærslur bankaviðskipta íbúanna á Selfoss með milligöngu póstsins. Ferðamenn, fyrirtækin, sveitarfélagið og íbúar þurfi að búa við ákveðna grunnþjónustu í byggðakjarnanum á Flúðum.
„Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir bankann. Ég spái því að Kaupþing muni tapa viðskiptavinum sínum í hreppnum.“