Ljósleiðari í Skotlandi, sem m.a. flytur öll fjarskiptasambönd frá landtökustöð sæstrengsins FARICE-1 til afhendingarstaðar fyrir þjónustu Farice hf. í London, bilaði í dag klukkan 16:40. Íslensk og færeysk fjarskiptafyrirtæki nota CANTAT-3 sæstrenginn sem varaleið, en afkastageta er þó verulega skert, líklega ekki nema 1/3 af því sem venjulegt er.
Í tilkynningu frá Farice segir, að mjög muni hægja á allri netumferð til annarra landa meðan ástand þetta varir. Verið sé að leita að biluninni og verði síðar upplýst hve langan tíma viðgerð muni taka.