Stúlkur sem verða fyrir kynferðisofbeldi sem börn glíma við afleiðingar þess alla ævi. Þetta eru niðurstöður meistararitgerðar Sigrúnar Sigurðardóttur hjúkrunarfræðings frá Háskólanum á Akureyri, Tíminn læknar ekki öll sár.
Ritgerðin byggir á djúpviðtölum sem Sigrún tók við sjö konur sem allar höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku.
Þá segir Sigrún konurnar allar hafa sömu sögu að segja um vandamál tengd móðurlífinu. „Það eru blöðrur á eggjastokkunum, samgróningar, hnútar, miklir blæðingaverkir, fósturmissir og fleira.“ Hún segir ekki ljóst hvers vegna þetta verður en oft komi einkennin í ljós eftir einhvern atburð, sálrænt áfall, kynlíf eða annað.
Hún segir fólk með reynslu af ofbeldi oft hafa brengluð mörk, bæði gagnvart sjálfum sér og öðrum. Þetta getur lýst sér í miklum öfgum, annað hvort er fólk alveg inni í sér, fælið og á flótta eða alveg öfugt. Þá segir hún öfgar tengdar mat, kynlífi og áfengi algengar. „Ein stundar kynlíf, mikið af því og með sem flestum á meðan aðrar geta ekki stundað kynlíf. Sumar borða og borða á meðan aðrar þjást af lystarstoli,“ segir Sigrún.