Uppboðsleiðin sú eina rétta

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist sannfærður um að sú uppboðsleið sem nú er farin til að úthluta tollkvótum sé sú eina rétta.

„Þetta er takmarkað magn og ég er alveg grjótharður á því að þetta er besta leiðin. Það hefur margoft verið farið yfir þetta, bæði hér í ráðuneytinu og í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Það hefur verið látið á það reyna hversu mikill áhugi sé fyrir þessum innflutningi með almennri auglýsingu. Þegar í ljós kom að áhuginn á innflutningnum var meiri en þær heimildir sem við sömdum um við ESB þá voru skoðaðir kostir til að útdeila þeim. Sú tillaga sem Samtök verslunar og þjónustu hafa nefnt, að draga þetta upp úr einhverjum hatti eins og töframaður er að mínu mati algjörlega út í loftið. Það væri svo tilviljunarkennt að það væri eins og að spila í einhverju lottói. Ég tel ekki líkur til þess að hún myndi skila þeim árangri að lækka kostnað við þennan innflutning.“

Einar segir að þau tvö útboð sem hafi verið farið í síðan samningurinn tók gildi hafi sannað það að fyrirkomulagið hafi reynst vel. „Útboðið sem var farið í núna síðast lækkaði vöruverð alveg örugglega.“

Tvöfaldir hagsmunir

Einar segir að viðræður við ESB um endurskoðun á tollamálum séu í gangi. „Niðurstaða þeirra viðræðna er ekki fundin en við stefnum að frekari tollalækkunum. Það má samt alls ekki gleyma því að Íslendingar eiga líka þeirra hagsmuna að gæta í þessu samkomulagi að við erum að opna á útflutning íslenskra landbúnaðarafurða til Evrópu og það gæti orðið íslenskum bændum mikils virði.“

freyr@24stundir.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert