Viðgerð á ljósleiðara sem m.a. flytur umferð FARICE-1 sæstrengsins í Skotlandi er lokið. Ástæða bilunarinnar mun hafa verið girðingarvinna skoskra bænda, en vorverk eru byrjuð þar í sveitum.
Ljósleiðarastrengurinn bilaði síðdegis í gær. Bilunin hafði m.a. þau áhrif að öll netumferð frá Íslandi og Færeyjum var hægvirkari en ella, enda er afkastageta varasambanda um CANTAT-3 sæstrenginn miklu minni en um FARICE-1 sæstrenginn.