9,2% af landsframleiðslu til heilbrigðismála

Heildarútgjöld Íslendinga til heilbrigðismála námu 117 milljörðum á síðasta ári.
Heildarútgjöld Íslendinga til heilbrigðismála námu 117 milljörðum á síðasta ári.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála voru 117,3 milljarðar króna 2007, eða 9,2% af landsframleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 96,8 milljarðar króna en hlutur heimila 20,5 milljarðar, eða 17,5% af útgjöldunum. Af heildarútgjöldum hins opinbera 2007 runnu 19% til heilbrigðismála.

Til fræðslumála var ráðstafað 106,5 milljörðum króna á árinu 2007, eða 8,3% af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera 97,8 milljarðar króna og hlutur heimilanna 8,7 milljarðar króna, eða 8,2%. Um fimmtungur útgjalda hins opinbera rennur til fræðslumála, að því er kemur fram í nýju riti Hagstofunnar um fjármál hins opinbera á síðasta ári.

Tekjur hins opinbera mældust 617,5 milljarðar króna 2007 og hækkuðu um tæpa 57 milljarða króna milli ára. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu þær 48,3% og hafa ekki verið hærri áður, en samsvarandi hlutfall var 48% árið 2006. Mikil hækkun hefur orðið í tekjum hins opinbera frá árinu 2002 er þær mældust 41,7% af landsframleiðslu. Útgjöld hins opinbera námu 551 milljarði króna árið 2007 og hækkuðu um ríflega 63 milljarða króna milli ára, eða úr 41,7% af landsframleiðslu árið 2006 í 43,1% árið 2007.

Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um tæplega 67 milljarða króna árið 2007, eða 5,2% af landsframleiðslu og 10,8% af tekjum. Til samanburðar var tekjuafkoman jákvæð um 6,3% af landsframleiðslu 2006 og 4,9% árið 2005. Þessi hagstæða tekjuafkoma stafar fyrst og fremst af miklum tekjuafgangi ríkissjóðs, sem nam 4,2% af landsframleiðslu árið 2007 og 5,3% árið 2006. Fjárhagur sveitarfélaganna hefur einnig snúist til betri vegar síðustu þrjú árin, enda þótt hann sé afar misjafn. Árið 2007 nam tekjuafgangur þeirra um 6 milljörðum króna, eða 0,5% af landsframleiðslu, og árið 2006 um 4 milljörðum króna, eða 0,3% af landsframleiðslu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert