Fundust kaldir og blautir undir sumarbústað í Borgarfirði

Hnoðri (t.v.) og Kátur í fangi Fjólu og Agnesar Erlingsdætra.
Hnoðri (t.v.) og Kátur í fangi Fjólu og Agnesar Erlingsdætra. mbl.is/Ómar

Hvolparnir Kátur og Hnoðri hafa gengið í gegnum ýmislegt á sinni tíu vikna ævi. Þeir fundust í janúar, kaldir og blautir, við sumarbústað í Borgarfirði og móðirin hvergi sjáanleg. Þeir hafa nú eignast fósturforeldra og heilla alla sem þá sjá upp úr skónum.

„Við fórum upp í bústað í janúar og sáum þá spor í snjónum sem við héldum að væru eftir ref,“ segir Fjóla Erlingsdóttir, bjargvættur hvuttanna, en hún og maður hennar hafa lítið litið í bústaðinn vegna ótíðarinnar í vetur. „Hálfum mánuði seinna fórum við aftur og þegar við komum að hliðinu mætti okkur fallegur en brjálaður hundur sem hleypti okkur hvergi nærri bústaðnum svo við snerum við í bæinn.“

Fjóla og fjölskylda létu þó ekki deigan síga heldur fóru aftur í bústaðinn viku síðar og þá var hundurinn á bak og burt en í staðinn mættu þeim tveir kornungir hvolpar á veröndinni. „Eftir að hafa gefið þeim pylsur að éta fórum við svo burtu og vildum sjá hvort mamman kæmi ekki til að sækja þá,“ segir Fjóla. „En þegar við snerum til baka daginn eftir fundum við hvolpana inni í rjóðri á lóðinni, ískalda, svanga og blauta.“

Hvolparnir voru þegar í stað færðir inn í hlýjuna í bústaðnum og gefið að éta við arineld og kertaljós. „Svo hafa þeir bara verið hjá okkur síðan,“ segir Fjóla og hlær. Ekkert hefur spurst til tíkarinnar þó einhverjir telji sig hafa séð spor eftir hana. Fjóla spurðist fyrir á bæjum í nágrenninu og enginn kannaðist við að eiga tíkina en margir höfðu séð til hennar allt frá því í desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka