Spá 3% lækkun íbúðaverðs

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Í nýrri spá um þróun íbúðaverðs reiknar Greining Glitnis með því að íbúðaverð muni lækka um 3% yfir þetta ár. Draga mun úr eftirspurn vegna hægari gangs hagkerfisins, lakara aðgengis að lánsfé og lítillar kaupmáttaraukningar.

Þá gerir Greining Glitnis ráð fyrir að hægi á fólksfjölgun í landinu samhliða minnkandi spennu á vinnumarkaði, en mikill aðflutningur erlends vinnuafls til landsins hefur aukið eftirspurn á íbúðamarkaði.

„Framboð af nýju húsnæði er mikið eftir mikla íbúðafjárfestingu á síðustu árum, en það er til þess fallið að auka söluþrýsting á markaði. Væntingar um þróun íbúðamarkaðarins, erfitt aðgengi að lánsfé og minni eftirspurn munu hægja á aukningu framboðs húsnæðis á komandi misserum.

Meðalverðbreyting íbúða á árinu, miðað við síðasta ár, verður þó jákvæð vegna grunnáhrifa, en samkvæmt spánni mun íbúðaverð verða að meðaltali 4,5% hærra á þessu ári en í fyrra. Við reiknum með að íbúðaverð lækki á fyrri hluta næsta árs, en taki lítillega við sér á síðari hluta ársins, þannig að verðið verði svipað í ársbyrjun 2009 og við lok þess árs," samkvæmt nýrri spá Greiningar Glitnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert