Bjarni Jónsson var í dag tilnefndur til Norrænu leikskáldaverðlaunanna 2008 fyrir leikritið ÓHAPP! Verkið var frumflutt síðasta haust á Smíðaverkstæðinu, Þjóðleikhúsinu, í leikstjórn Stefáns Jónssonar.
Norrænu leikskáldaverðlaunin eru veitt á Norrænum leiklistardögum sem haldnir eru annað hvert ár, að þessu sinni í Tampere í Finnlandi 4.–10. ágúst nk.
Norrænu leikskáldaverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1992 þegar Hrafnhildur Hagalín var fyrst norrænna leikskálda til að hljóta þau. Fékk Hrafnhildur verðlaunin fyrir leikrit sitt Ég er meistarinn, sem frumflutt hafði verið af Leikfélagi Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu og verið sýnt þar við fádæma vinsældir.