Almenn ánægja með Sjúkrahúsið á Akureyri

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri. mbl.is

Sjúklingar eru almennt ánægðir með þjónustu, aðbúnað og andrúmsloft á Sjúkrahúsinu á Akureyri (FSA) að því er kemur fram í niðurstöðum nýrrar viðamikillar rannsóknar á viðhorfum sjúklinga, sem var unnin af Capacent fyrir FSA.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna gæði frá sjónarhóli sjúklinga og breytingar frá fyrri mælingu, sem framkvæmd var árið 2005. Fram kemur í fréttatilkynningu frá FSA að niðurstöður eru í nær öllum tilfellum betri nú en í könnuninni árið 2005.  651 einstaklingur var í endanlegu úrtaki könnunarinnar og þar af svöruðu 504 eða 77,4%. Í úrtakinu voru sjúklingar, 18 ára og eldri, sem nýverið höfðu útskrifast af tilteknum deildum sjúkrahússins.  Lögð var áhersla á að meta fjóra þætti í starfsemi sjúkrahússins, þ.e. faglega færni, aðbúnað, einstaklingsmiðaða nálgun og félagslegt andrúmsloft. Þátttakendur svöruðu ýmsum spurningum um reynslu þeirra og upplifun af framangreindum þáttum.

Hvað faglega færni varðar töldu 54,6% þeirra sem svöruðu að gæðin væru í jafnvægi, 34,7% töldu gæði faglegrar færni rífleg en 6,4% töldu vanta upp á gæðin.  Þegar spurt var um einstaklingsmiðaða nálgun töldu 53,2% svarenda gæðin í jafnvægi, 39,2% töldu gæðin rífleg en 7,6% töldu vanta upp á gæðin.
Ríflega helmingur svarenda, eða 50,7%, taldi gæði aðbúnaðar í jafnvægi, 40,3% töldu gæðin rífleg en 9,0% töldu vanta upp á gæðin. 54,6% töldu gæði félagslegs andrúmslofts í jafnvægi, 34,7% töldu gæðin rífleg en 10,7% töldu vanta upp á gæðin.

“Þessar niðurstöður sýna að við erum á réttri leið,” segir Halldór Jónsson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri. “Útkoman er í nær öllum tilfellum betri en í sambærilegri könnun árið 2005 sem sýnir að fleiri eru ánægðir og færri óánægðir nú en þá," segir Halldór. 

Niðurstöður könnunarinnar má nálgast á vef Sjúkrahússins á Akureyri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert