Dýrt páskaferðalag

Það verður síður en svo ódýrt fyrir Íslendinga að ferðast um páskahelgina. Standi hugurinn til ferðalaga innanlands mun hækkun á eldsneytisverði valda því að bensínkostnaður verði þriðjungi hærri en vegna sama ferðalags fyrir ári.

Ef helgarferð til Kaupmannahafnar verður fyrir valinu má líka reikna með því að bjórinn á Strikinu kosti íslenskan ferðalang jafnvirði 800 íslenskra króna, í stað 600 króna fyrir ári, og sé því orðinn þriðjungi dýrari.

Ef gengisbreytingar síðustu daga ganga ekki til baka má fastlega búast við því að sumarleyfið verði líka miklu dýrara en margir gerðu ráð fyrir, hvort sem ferðast verður innanlands eða utan. Ferðaskrifstofur, sem við var rætt, sögðu líklegt að verð á pakkaferðum hækkaði. Þá þýðir gengislækkun að allur innfluttur varningur, þar á meðal matur og drykkur, hækkar í verði.

Ákveði ferðalangurinn að skella sér í borgarferð horfir hann ekki fram á minni hækkanir, sökum veikingar íslensku krónunnar gagnvart flestum öðrum gjaldmiðlum. Til dæmis fór evran í 119,44 krónur í gær, sem er met. Á sama tíma í fyrra kostaði evran undir 90 krónum. Danska krónan stóð í 15,91 krónu í lok dags og hefur sjaldan verið hærri gagnvart krónunni; í mars í fyrra kostaði hún rétt tæpar 12 krónur.

Ekki hagkvæmt að fara utan

Þannig kostar tveggja manna herbergi á Imperial Hotel í Kaupmannahöfn 6.360 danskar krónur fyrir fjórar nætur yfir páskana. Á gengi dagsins í gær gerir það tæpar 101 þúsund krónur. Á gengi sama dags í fyrra samsvaraði það um 76 þúsund krónum og munar því þriðjungi.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Flugstöð Leifs Eiríkssonar mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert