Árið 2007 fæddust 4560 börn hér á landi, 2359 drengir og 2201 stúlka. Það eru fleiri börn en ári áður en þá fæddust hér 4415 börn.
Þetta kemur fram í nýjum upplýsingum frá Hagstofunni. Þar kemur einnig fram, að frjósemi íslenskra kvenna var heldur meiri árið 2007 en nokkur síðustu ár en hún er reiknuð sem fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu.
Árið 2007 mældist frjósemi hérlendis 2,1 barn á ævi hverrar konu, samanborið við 2,07 börn árið 2006 og 2,05 börn árið 2005. Undanfarna tvo áratugi hefur frjósemi hérlendis verið í kring um 2 börn á ævi hverrar konu að meðaltali.
Mikil frjósemi hér á landi
Frjósemi hérlendis var afar há í evrópsku samhengi á sjötta áratug 20. aldar. Hámarki náði frjósemin í lok sjötta áratugarins og upphafi þess sjöunda en þá gátu íslenskar konur vænst þess að eiga 4,1 barn um ævina.
Frjósemi á Íslandi er nú hærri en annars staðar í Evrópu ef Tyrkland er undanskilið. Næst hæst var hún í Frakklandi (2) árið 2006. Samanborið við önnur lönd í Evrópu var fæðingartíðni einnig há annars staðar á Norðurlöndunum. Af Norðurlöndunum var hún hæst í Noregi (1,9).
Á Bretlandseyjum var fæðingartíðni svipuð og á Norðurlöndunum árið 2006, eða 1,84 í Bretlandi og 1,93 á Írlandi. Lægst var fæðingartíðnin innan álfunnar í löndum Austur-Evrópu árið 2006. Þar var hún á bilinu 1,24 til 1,55, lægst í Slóvakíu en hæst í Eistlandi.
Algengasti barneignaraldur 25-29 ár
Á sama tíma og frjósemi hefur lækkað hefur meðalaldur mæðra hækkað og konur eignast sitt fyrsta barn síðar en áður var. Frá byrjun sjöunda áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja 22 ár en eftir miðjan níunda áratuginn og til dagsins í dag hefur meðalaldur frumbyrja hækkað og var 26,6 ár árið 2007.
Algengasti barneignaraldurinn nú er á milli 25 og 29 ára. Á því aldursbili fæddust 128 börn á hverjar 1000 konur árið 2007. Næst algengast er að konur eignist börn á bilinu 30-34 ára. Algengasti barneignaraldurinn á fyrri hluta 20. aldar var einnig aldurshópurinn frá 25-29 ára og aldurshópurinn 30-34 ára fylgdi fast í kjölfarið. Á síðari helmingi tuttugustu aldar var algengast að mæður eignuðust börn á aldursbilinu 20-24 ára og næst algengast í aldurshópnum 25-29 ára.
Þriðungur barna fæddur innan hjónabands
Rétt rúmur þriðjungur þeirra barna sem fæddust árið 2007 (36,2%) var fæddur innan hjónabands, sem er lágt hlutfall ef miðað er við önnur Evrópulönd. Hlutfall þeirra barna sem áttu foreldra í óvígðri sambúð var 49,3%. Hlutfall þeirra barna sem áttu foreldra sem ekki voru skráðir í sambúð var 14,4% árið 2007, sem er svipað hlutfall og árið áður.