Höfuðstóll erlends láns upp á 20 milljónir sem tekið var fyrir einu ári hefur hækkað um 4,5 milljónir kr. Ástæðan er sú að gengi krónunnar hefur lækkað um 25% á þessu eina ári. Greiðslubyrðin hefur einnig þyngst verulega; farið úr 133 þúsundum á mánuði í 164 þúsund.
Gengislækkun krónunnar hefur strax áhrif á greiðslubyrði af erlendum lánum en greiðslan miðast við stöðu gengis á gjalddaga. Greiðslubyrðin getur því sveiflast um nokkra tugi þúsunda milli mánaða. Erfitt er að spá því hver þróun gengis verður á næstu vikum en það er auðvitað hugsanlegt að lækkunin síðustu daga gangi til baka á næstu vikum eða mánuðum. Gengið gæti einnig haldið áfram að falla.
Gengið hefur einnig áhrif á höfuðstólinn. Margir sem tekið hafa erlend lán hafa séð höfuðstólinn lækka umtalsvert samhliða styrkingu gengis. Nú er staðan gerbreytt. Gengisvísitalan hefur aldrei verið hærri og því er gengisávinningur þeirra sem tekið hafa erlend lán horfinn. Skiptir þá engu máli hvenær lánið var tekið.