„Þar sem barnið er ellefu ára og á því engar eignir, hefði að öllum líkindum ekki verið neina fjármuni til þess að sækja. Þess vegna hefði lögmaðurinn líklega valið að stefna aðeins skólanum en ekki barninu, ef móðirin hefði ekki verið tryggð,“ segir Hjördís E. Harðardóttir, lögmaður og sérfræðingur í skaðabótarétti, um málið í Mýrarhúsaskóla, þar sem móðir var dæmd til að greiða kennara skaðabætur. Hjördís segir jafnframt að þetta sé ástæðan fyrir því að sjaldan reyni á skaðabótaskyldu barna.
Fjölskyldutrygging bætir tjón af völdum barna undir tíu ára aldri, án tillits til skaðabótaskyldu. Eftir þann aldur þarf svo að meta hvort um bótaskyldu sé að ræða. Hefði stúlkan verið yngri „hefði tryggingafélagið greitt þetta umyrðalaust,“ segir Guðni Haraldsson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður kennarans. Málið hefði í því tilviki ekki farið fyrir dóm.
Í kjarasamningum kennara er ákvæði þess efnis að ef vinnuveitandi er gerður skaðabótaskyldur lækki skaðabæturnar sem slysabótunum nemur. Því hefði kennarinn fengið 2,2 milljónum minna ef sveitarfélagið hefði verið dæmt skaðabótaskylt, fyrir hönd skólans.