Ný kísilvinnsla í Þorlákshöfn

Orkuveituhúsið
Orkuveituhúsið mbl.is/ÞÖK

„Við höfum gengið frá viljayfirlýsingu um að taka upp viðræður við aðila sem ætlar að vera með framleiðslu í Þorlákshöfn,“ segir Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), um mögulega orkusölu fyrirtækisins til kísilvinnsluverksmiðju sem fyrirhugað er að rísi um fjóra kílómetra vestur af Þorlákshöfn. Ef af framkvæmdinni verður skapast allt að 350 störf.

Samkvæmt heimildum 24 stunda er um að ræða bandarískt fyrirtæki og hafa viðræður við það staðið yfir frá því á síðasta ári. Viljayfirlýsingin var samþykkt á stjórnarfundi OR síðastliðinn fimmtudag en hún snýr að sölu á 90 til 100 MW (megavött) af orku til verksmiðjunnar. Til samanburðar má nefna að orkuþörf álvers Alcan í Straumsvík er um 300 MW. Í yfirlýsingu OR er auk þess gert ráð fyrir að fyrirtækið geti útvegað 85 MW í viðbót til starfseminnar síðar.

Hjörleifur segir framleiðsluna vera mjög vistvæna og þurfi ekki útblásturskvóta. „Þeir eru að ræða bæði við okkur og Landsvirkjun, enda þurfa þeir að kaupa rúm 300 MW.“

Kjartan Magnússon, stjórnarformaður OR, staðfestir að um kísilvinnslufyrirtæki sé að ræða. „Ef af þessu verður yrði fluttur hingað til lands kvartssandur sem yrði hreinsaður með svokallaðri kísilhreinsun. Úr þessu yrði þá gerður hágæðakísill sem meðal annars er notaður í hálfleiðara og sólarrafhlöður."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert