Ræddi við afganskan héraðsstjóra

Afganskur lögreglumaður á verði í Kabúl.
Afganskur lögreglumaður á verði í Kabúl. AP

Ingibjörg  Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra átti fund með héraðsstjórann í Maymana í Norðvestur-Afganistan í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Urði Gunnarsdóttur, fjölmiðlafulltrúa utanríkisráðuneytisins, var um mjög áhugaverðan fund að ræða þar sem héraðsstjórinn kallaði skýrt eftir því að alþjóðaliðið verði áfram í landinu og styddi yfirvöld í héröðunum beint.

„Hann lagði þannig mikla áherslu á að fá aðstoð við uppbyggingu landbúnaðar í héraðinu,“ segir Urður.

Tilgangur heimsóknar utanríkisráðherra til borgarinnar Maymana var, að sögn Urðar, einnig að skoða þau þróunarverkefni sem Íslendingar hyggjast styðja.

Ingibjörg átti fundi með kvennamálaráðherra og varautanríkisráðherra Afganistans í dag þar sem staða kvenna í landinu var rædd sem og aðkoma Íslendinga að uppbyggingarstarfinu í landinu. Í kvöld bauð hún síðan afgönskum áhrifakonum til kvöldverðar til þess að fá tækifæri til þess að heyra þeirra sjónarmið. Að sögn Urðar var um að ræða afganskar þingkonur, framakonur, athafnakonur, forsvarsmenn frjálsra félagasamtaka og hershöfðingja.

„Ingibjörg átti svipaðan kvöldverð þegar hún var í Palestínu á síðasta ári og henni þótti mjög áhugavert að heyra hlið kvenanna í þessu umhverfi,“ segir Urður.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka