Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ undirrituðu í dag samning þar sem Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands er formlega falin umsjón og umsýsla með Ferðasjóði íþróttafélaga, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Á fundi ríkisstjórnar Íslands í mars 2007 var samþykkt að koma á fót ferðasjóði íþróttafélaga innan vébanda ÍSÍ til að jafna aðstöðumun og efla íþrótta- og forvarnastarf, í samræmi við tillögur nefndar sem menntamálaráðherra fól að fjalla um ferðakostnað íþróttafélaga. Með stofnun ferðasjóðsins eru mörkuð tímamót í ferðakostnaðarmálum íþróttahreyfingarinnar.
Með samningnum er komið á fót sjóði sem kemur til móts við íþróttafélög vegna kostnaðar þeirra af ferðalögum innanlands, sérstaklega þeirra sem eiga um langan veg að fara til þess taka þátt í viðurkenndum mótum. Markmið sjóðsins er einnig að stuðla að öruggum ferðamáta íþróttafólks.Framlag ríkisins í sjóðinn er alls 180 m.kr. á árunum 2007- 2009 og skiptist á eftirfarandi hátt: 30 m.kr. fyrir árið 2007, 60 m.kr. fyrir árið 2008 og 90 m.kr. fyrir árið 2009.
Opnað var fyrir umsóknir í sjóðinn 10. desember 2007 og rann umsóknarfrestur út þann 10. janúar s.l.
Alls bárust umsóknir frá 138 íþróttafélögum, frá öllum héraðssamböndum ÍSÍ. Sótt var um styrk fyrir 21 íþróttagrein. Heildarkostnaður umsókna var um 260 milljónir króna en heildarkostnaður styrkhæfra umsókna var ríflega 223 milljónir króna.