Segir gengi krónunnar næstum rétt skráð


Gengi íslensku krónunnar er nær því að vera rétt skráð nú, en verið hefur um langa hríð, sagði Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur Landsambands íslenskra útvegsmanna, í fréttum Útvarpsins. Sagði hann að tekjur sjávarútvegsins aukist um 25 milljarða við breytingar á genginu og vega upp niðurskurð á þorskkvótanum.

LÍÚ segir, að íslenskur sjávarútvegur hafi orðið af 15-20 milljarða króna tekjum árlega síðustu árin vegna þess að gengi krónunnar hefur ekki verið rétt skráð. Eðlilegt sé að gengisvísitala krónunnar sé á bilinu 135-140 stig.

Sveinn Hjörtur sagðist telja raunhæft, að ætla að sjávarútvegurinn nái sömu tekjum og á síðasta ári eða 128 milljörðum króna vegna gengisþróunarinnar. Gengisvísitala í tæpum 160 stigum sé nær lagi en þegar krónan var sterk og vísitalan um og yfir 100 stig um skeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert