Reykjavíkurborg undirritaði í dag samning við Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands um að útvega Félagsstofnun stúdenta lóðir undir u.þ.b. 600 stúdentaíbúðir (einstaklingsíbúðir og fjölskylduíbúðir) á næstu 4 árum.
Þær íbúðir, sem þetta samkomulag tekur til, skulu að meirihluta vera staðsettar í nágrenni miðborgarinnar. Svæði sem eru til sérstakrar skoðunar eru á svokölluðu Hlemmur + svæði; í nágrenni við Hverfisgötu; í nágrenni við hafnarsvæði (Örfirisey og Mýrargötu) og í Vatnsmýri, samkvæmt tilkynningu.
Samstarf og samráð verður við Háskóla Íslands vegna hugsanlegrar uppbyggingar í nágrenni við Háskólann. Hluti umræddra lóða verða einnig á nýbyggingarsvæðum, og verður sérstaklega tekið mið af þörfum stúdenta með fjölskyldur, eins og við Sléttuveg og í Úlfarsárdal.
Á miðborgarsvæðum verður uppbygging miðuð við að bílastæðakröfur stúdenta séu almennt lægri en gengur og gerist og skuldbinda Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands sig til að framfylgja þeim markmiðum eftir með áherslu á fjölbreytta samgöngukosti.
Stofnaður hefur verið samráðshópur sem skipaður er fulltrúa skipulags- og
byggingasviðs, fulltrúa framkvæmda- og eignasviðs, fulltrúum frá Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráði Háskóla Íslands. Samráðshópurinn mun bera ábyrgð á framkvæmd
áætlunarinnar og tryggir náið og stöðugt samráð á milli aðila um tækifæri og fyrirkomulag uppbyggingarinnar.