Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir ferð sína til Afganistan hafa verið árangursríka. Hún fundaði með Hamid Karzai forseta landsins í dag þar sem helst var rætt um þau vandamál sem steðja að Afgönum í dag, þ.e. hryðjuverk, vaxandi framleiðsla eiturlyfja og mikill skortur á menntun. Ingibjörg er nú á heimleið en hefur viðkomu í Brussel yfir nótt áður en hún kemur heim á morgun.
Einnig fundaði Ingibjörg með friðargæsluliðum og öðru starfsliði frá Íslandi í höfuðborginni, Kabúl, og segist nú skynja eðli og umfang þess starfs sem Íslendingar vinna í landinu mun betur. Hún segir ljóst að miklu sé hægt að áorka þar fyrir litla fjármuni, og ljóst að margir þekki ekki til þess góða starfs sem þarna sé unnið. ,,Í því verkefni sem við höfum tekið þátt, undir stjórn Norðmanna, hafa meðal annars verið byggðir upp um 107 barnaskólar á einu ári og yfir 1000 kennarar þjálfaðir," segir Ingibjörg Sólrún. Hún segir sýn Karzais á land sitt áhugaverða, þ.e. að ríkið sé ekki misheppnað ríki (e. failed state) heldur ríki sem hafi verið brotið markvisst niður. Möguleikar þess séu því miklir.
Hún kveður ljóst að á sama tíma og í landinu séu mikil fáfræði, fordómar og fátækt, búi þar mikið af kraftmiklu fólki.