Grunur leikur á að óprúttnir aðilar hafi tekið greiðslu og hlut af launum fimm Kínverja gegn því að útvega þeim atvinnuleyfi, vinnu og húsnæði við austurlenska veitingastaðinn The Great Wall við Vesturgötu í Reykjavík.
Fréttablaðið birti fregn um þetta mál í blaði sínu í dag en í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins sagði Níels S. Olgeirsson formaður Matvís, Matvæla- og veitingafélag Íslands að málið hefði farið af stað í ágúst á síðasta ári.
Níels sagðist hafa mætt með túlk til að upplýsa starfsmenn um réttindi sín en ljóst væri að þáverandi eigendum hefði þótt óþægilegt að hafa túlk á staðnum og að starfsfólk hefði ekki verið viljugt að ræða um kaup sín og kjör.
Níels sagði að starfsfólk hefði verið útvegaður óviðunandi híbýli upp undir súð á gamla Naustinu og að hann hefði bæði látið lögreglu og heilbrigðisyfirvöld vita af ástandinu.
„Við erum fyrst og fremst að leita réttar fyrir þessa félaga okkar og sækja laun sem þau eiga inni fyrir þessa vinnu hjá fyrirtækinu," sagði Níels sem tók fram að staðurinn hafi staðið við þær greiðslur sem um var samið til starfsfólksins í kjölfar heimsóknar þangað síðast liðið haust.
Matís hefur aðstoðað tvo kínverska matreiðslumenn við að finna aðra vinnu og húsnæði í kjölfar þessa máls.
Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu könnuðust menn við að meint mansal hafi verið kannað í fyrra en staða þessa máls er óljós á þeim bæ.
Í Fréttablaðinu kemur fram að síðan í haust hafi nýir eigendur tekið við rekstri staðarins.