Samtök verslunar og þjónustu segja lyfjaverð í apótekum á Íslandi lægra heldur en í Danmörku og Svíþjóð. Hins vegar sé lyfjaverð lægra í Noregi, eða 6,9% heldur en á Íslandi. Gagnrýna samtökin nýlega verðkönnun lyfjagreiðslunefndar á lyfjum þar sem fram kom að smásöluverð á lyfjum sé oftast hæst hér
„Lyfjagreiðslunefnd sendir af og til frá sér tilkynningu til fjölmiðla þar sem hún ber saman heild- og smásöluverð á lyfseðilskyldum lyfjum á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum.
Þetta er út af fyrir sig kostuleg æfing þar sem umrædd nefnd ákveður bæði
heild- og smásöluverð þessarar vöru á Íslandi. Grundvöllur ákvörðunar
nefndarinnar á lyfjaverði hér á landi er lyfjaverð á hinum Norðurlöndunum að
teknu tilliti til íslenskra aðstæðna. Eðlilegt virðist að einhver annar aðili
en nefndin sjálf leggi dóm á það hvort nefndin sinnir sínu hlutverki eða ekki, en gerist ekki með þessum hætti
dómari um eigið ágæti. Fleira er þó
gagnrýnivert varðandi umræddan verðsmanburð frá nefndinni, nefnilega það að
hvergi kemur fram þar sem þessi samanburður er birtur að það sé
lyfjagreiðslunefnd sem ákveði heildsölu- og smásöluverð lyfseðilskyldra lyfja," að því er segir í tilkynningu frá SVÞ.
Við samanburð á verði 20 kostnaðarsömustu lyfjanna 17. mars sl. í apótekum í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi kemur í ljós að þau eru að meðaltali 7,5% dýrari í Danmörku en hér á landi, 6,9% ódýrari í Noregi en hér og 2,7% dýrari í Svíþjóð en hér.
Til viðbótar veita íslensk apótek mismunandi afslátt frá opinberu verði vegna samkeppni þeirra á milli en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er bannað að veita afslátt af lyfseðilsskyldum lyfjum.
Þess ber þó að geta að einstök lyf eru mun dýrari hér og önnur mun ódýrari, auk þess sem gengi gjaldmiðla á hverjum tíma hefur áhrif. Sem dæmi má nefna að daginn sem verðsamanburðurinn var gerður kostuðu 30 töflur af Casodex, hormónalyfi sem er algengt í krabbameinsmeðferð, sem svarar 56.309 kr. í Danmörku en 48.514 kr. á Íslandi. Þar er verðmunurinn 7.795 kr. íslenskum apótekum í vil. Aftur á móti kostuðu 98 töflur af Simvastatin, lyfi sem er blóðfitulækkandi, sem svarar 2.101 kr. í Danmörku en 4.239 kr. á Íslandi. Þær eru með öðrum orðum 2.138 kr. dýrari hér en í Danmörku, samkvæmt tilkynningu SVÞ.