Ríkisábyrgð ÍE enn í gildi

Íslensk erfðagreining
Íslensk erfðagreining

Ríkisábyrgð vegna fjármögnunar á starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) að fjárhæð allt að 200 milljónir Bandaríkjadala (um 15 milljarðar króna) er enn í gildi. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, vill að hún verði felld úr gildi.

„Mér fannst hún vafasöm á sínum tíma og hef aldrei verið talsmaður ríkisábyrgðar fyrir einkaaðila. Það þarf að leysa slíkan stuðning ríkisins, ef hann á að vera, með öðrum hætti. Hvað varðar þessa einstök ábyrgð þá tel ég það einsýnt að það eigi að fella hana úr gildi, enda hefur sá aðili sem sóttist eftir henni á sínum tíma talið að hún sé óþörf og lýst því yfir að fyrirtækið þurfi ekki á henni að halda. Hér er ég að enduróma hug okkar jafnaðarmanna.“

Ábyrgðin var aldrei nýtt

Ábyrgðin var fest í lög 23. maí 2002 og er ekki bundin neinum tímaramma. Því hefur fjármálaráðherra enn heimild til að veita hana ef ný beiðni kæmi frá ÍE um slíkt. Íslensk stjórnvöld tilkynntu lagasetninguna til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem tók það til formlegrar skoðunar hvort slík ríkisábyrgð til handa einkafyrirtæki væri yfirhöfuð möguleg. Sú athugun dróst þó mjög á langinn og að endingu dró ÍE umsókn sína um ábyrgðina til baka vorið 2004. Þá höfðu um tvö ár liðið frá því að veiting hennar var samþykkt á Alþingi.

Tilkynning íslenskra stjórnvalda var því dregin til baka án þess að niðurstaða lægi fyrir og ábyrgðin aldrei nýtt.

Skuldabréf gátu breyst í hlutafé

Frumvarp til laga um ábyrgðina var lagt fyrir í apríl 2002 af Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra. Um er að ræða sérstaka ríkisábyrgð til rannsókna og verkefnis um að hefja lyfjaþróun á grundvelli erfðafræði. Ef vel gengi hjá ÍE í þessu verkefni og hlutabréf fyrirtækisins næðu ákveðnu marki (18 dollarar á hlut) myndu skuldabréf ríkisins umbreytast í hlutafé og þau teljast uppgreidd. Ábyrgð ríkisins á útgáfu þeirra félli þá niður.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert