Vorhreinsun gatna í Reykjavík er hafin

Sverrir Vilhelmsson

Í byrjun vikunnar hófst vorhreinsun á gatnakerfinu í Reykjavík. Verktakar á vegum Framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar fóru um borgina með stórvirk hreinsitæki. Borginni er skipt í tvö útboðssvæði og sér Íslenska gámafélagið um hreinsun vestan Kringlumýrarbrautar og Hreinsitæki austan hennar.

Á vegum beggja verktakanna eru um 20 tæki tiltæk við hreinsun í borginni, en það eru sex götusópar,  sex gangstéttasópar, fjórar sugur og fjórir vatnsbílar. Þeim verður öllum beitt þegar aðstæður leyfa, en því miður er spáð kuldakasti næstu daga og fram yfir páska, og slíkar aðstæður geta tafið hreinsun, því ekki er hægt að þvo og sópa götur í frosti. Einnig truflar það vorhreinsun að enn er klaki á húsagötum í efri byggðum, samkvæmt tilkynningu.

Rusl sem vex af sjálfu sér

Starfsmenn hverfastöðva Framkvæmda- og eignasviðs eru einnig stöðugt á ferðinni að hreinsa upp erfiða staði „þar sem rusl hreinlega virðist vaxa af sjálfu sér“, eins og einn starfsmaðurinn orðaði það. Einkum á þetta við í nágrenni greiðasölustaða þar sem umtalsvert fellur til af neysluumbúðum. Íslenski vindurinn virðist einstaklega laginn við að rífa umbúðir úr höndum viðskiptavina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert